8.5.09

Í sandölum og ermalausum bol...

Já, leiðinni var heitið til Diu. Áfram var hitastigið 44 gráður en hafgolan kældi mig niður ásamt því að krúsa um eyjuna á vespu með goluna í andlitið og sólina í bakið. Diu var yndisleg, svo yndisleg að eftir þessa fimm daga sem ég átti þar óskaði ég þess að ég ætti 5 vikur til að vera þar. Ég gisti uppí þaki á gamalli kirkju sem er búið að breyta í safn og gistiheimili. Á kvöldin sat ég með öðrum ferðalöngum uppá þaki kirkjunnar og horfði á sólsetrið með kaldan bjór í hendi, yfirleitt eftir að eyða deginum í að krúsa um eyjuna, skoða litlu þorpin, stoppa aðeins á ströndinnni og taka smá dýfu í sjónum. Yndislegt líf alveg hreint. Maturinn yndislegur (ferskir sjávarréttir á hverju kvöldi) og fólkið í alla staði yndislegt, bæði heimamenn og aðrir ferðalangar.

Svo kom að því að ég þurfti að fara og þá var það 22 klst. rútuferð til Bombay. Átti svo 2 daga í Bombay og notaði fyrri daginn í útréttingar, eins og t.d. að kaupa mér gítar fyrir gítarskóla ömmu, og fór svo um kvöldið út með 2 fyndnum stúlkum sem ég hitti á Salvation Army og Indverskri vinkonu þeirra, sem var skemmtilega léttgeggjuð. Notaði svo síðasta daginn í slökun, labba meðfram sjónum og anda inn síðustu klukkustundum Indlands með kökkinn í hálsinum yfir að vera að fara. Já, mér fannst ég hreint ekki tilbúin til að yfirgefa Indland, en á sama tíma var mig farið að hlakka til að hitta fjölskyldu og vini, þannig að það er gott að halda heim á leið en ég veit líka að til Indlands mun ég aftur fara.

Fyrsta daginn minn í London var ég bara að dóla mér um götur miðborgarinnar á meðan ég beið eftir að Sólveig yrði búin að vinna. Fyrsta manneskjan sem ég spjallaði við var Indverskur skó-sölumaður sem bauðst til að sýna mér Kerala ef ég kæmi til Indlands næsta vetur. Um kvöldið fengum við Sólveig okkur svo Indverskan mat í hverfinu hennar, þar sem ég endaði á að tala við kærustu afgreiðslu piltsins í síma og mæla með stöðum til að skoða og veitingastöðum til að borða á í Rishikesh. Gaf honum afgangs rúpíurnar mínar (að andvirði 3 punda) fyrst kærastan var að fara til Indlands eftir nokkra daga, og útá það fengum við Sólveig frí papadoms með matnum og kók. Mjög fyndinn fyrsti dagur, fannst að ég gæti bara hreinlega ekki slitið mig frá Indlandi.

Helginni eyddi ég svo til skiptis með Sólveigu og Louise og að sjálfsögðu með Ósk. Ósk kom til London á föstudeginum og Louise var ansi dugleg við að rölta með okkur út um allt og líka dugleg að fara með okkur á djammið. Sunnudeginum eyddi ég svo með Louise á pöbbnum og borðaði sunday roast, agalega bresk eitthvað... Fór svo um kvöldið til Sólveigar og fékk Sushi. Var því í endalausri veislu þann daginn. Á mánudeginum fórum svo ég, Sólveig og Hlíf til Brighton. Veðurspáin hafði verið voða fín þannig að við Sólveig vorum frekar sumarlega klæddar en vorum svo alveg að deyja úr kulda í kulda og roki. Brighton var þó afskaplega falleg og krúttleg og gæti ég vel hugsað mér að fara þangað aftur í betra veðri. Reyndar var mér kalt allan tímann sem ég var í London, en ég held að ég hafi verið eina manneskjan í allri London sem var í jakka, með klút og hatt og var samt kalt!

Núna er ég hjá Hirti og Bjarneyju í yndislegu veðri á suður-Spáni og nýt rólegheita smábæjarlífsins. Hér er ég í endalausri matarveislu þar sem þau skötuhjú eru dugleg að elda og bróðir minn ansi duglegur að baka. Held að ég verði bara hugsanlega með ístru þegar ég kem heim, það allavega stefnir allt í það með endalausum átveislum og rólegheita lífi :) Erum nú þegar búin að skoða aðeins nágrenni Rota og á morgun er planið að skreppa til Sevilla og eyða deginum þar. Á sunnudaginn er svo planið að fara á "feríuna", sem er svona bæjarhátíð með tívolítækjum, ýmsum básum og skemmtilegheitum.

Í kvöld eldaði ég Indverskt karrý fyrir litlu fjölskylduna, með chapatti og papadoms og öllu tilheyrandi. Eitthvað var nú erfitt að fá réttu kryddin hér á Spáni, en þetta hafðist nú allt saman með smá reddingum með öðrum kryddum, það má segja að ég hafi tekið mér smá skáldaleyfi við uppskriftina.

Ég komst að því í dag hvað það er ódýrt að fara til tannlæknis hér, þannig að ég er búin að panta tíma. Fer því í næstu viku til tannlæknis og spara mér smá aur. Er orðinn alger nirfill og reyni að spara allsstaðar þar sem ég sé smugu til að spara.

Nú eru bara 11 dagar í heimkomu. Hlakka til að sjá ykkur öll, sýna myndir, segja sögur og heyra sögur.

Ciao,
Helga Espanola.

No comments: